Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020

2. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2020.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að svokallaðir krónutöluskattar (olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak) hækki um 2,5%. Einnig er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins hækki um 2,5%. Lagt er til bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða verði framlengt. Einnig er lagt til bráðabirgðaákvæði sem koma skal í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Gert er ráð fyrir að bráðabirgðaákvæði til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju verði framlengt. Að auki er lagt til að bráðabirgðaákvæði um hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verði framlengt. Enn fremur er lögð til hækkun á sóknargjöldum sem og breytingar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um loftslagsmál. Loks er lagt til að settir verði á nýir grænir skattar á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem fluttar eru til landsins og á urðun almenns og óvirks úrgangs.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 18 lögum.
  • Skylt mál: Fjárlög 2020, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 150. þingi (10.09.2019)

Kostnaður og tekjur

Gjöld
Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 3,4 milljörðum króna á árinu 2020.

Tekjur
Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 185 milljónum kr. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiðagjöld) auka tekjur ríkissjóðs um 1,4 milljarða kr. Gert er ráð fyrir því að álagning nýrra grænna skatta muni auka tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarða króna á árinu 2020 og um viðbótar 1 milljarð króna árið 2021. Heildaráhrif frumvarpsins til hækkunar á tekjum eru metin um 3,1 milljarðar kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum en þessum helstum:

-Sóknargjöld voru hækkuð úr 930 kr. í 975 kr.
-Sú hlutfallstala sem Fæðingarorlofssjóður fær í sinn hlut af tekjum af almennu tryggingagjaldi var hækkuð úr 0,65% í 1,1%.
-Ákvæði frumvarpsins um urðunarskatt voru felld brott.
-Lögum um opinber fjármál var breytt þannig að reikningsskil A-hluta ríkissjóðs og einstakra ríkisaðila í A-hluta skulu verða samræmd.
-Gjöld fyrir vegabréfsáritanir voru hækkuð úr 4.200 kr. í 5.500 kr. fyrir 6–12 ára og úr 7.800 kr. í 11.000 kr. fyrir 13 ára og eldri.
-Gjald fyrir útgáfu dvalarskírteinis fyrir aðstandendur EES-borgara, sem ekki eru EES- eða EFTA-borgarar, var fellt niður.


Síðast breytt 09.10.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.